Saga Eldeyjarhússins

 

Skrifað af Alfred Júlíus Styrkársson
Miðvikudagur, 05 Mars 2008 15:36

Þættir úr ræðu Bjarna Bentssonar flutt á klúbbfundi.

 

Það hefur verið venja hér í klúbbnum að kynna ræðumenn, en ég hef óskað eftir því að kynna mig sjálfur.

 

Ég heiti Bjarni Bentsson og er einn af stofnendum klúbbsins, elstur allra klúbbfélaga að árum, ber titilinn aldursforseti. Ég er svo gamall að ég gæti verið faðir meirihluta klúbbfélaga. Ég er einn af fyrrverandi forsetum, fyrsti heiðursfélagi klúbbsins, alltaf þótt erfiður í taumi og stundum viljað fara mínar eigin leiðir. Ég er fæddur og uppalin á Vestfjörðum, á veðrasömum æskustöðvum, var kennt að sækja á móti veðri og láta ekki hrekja mig af leið. Frásagnarmáta og tungutak nota ég, sem einum er lagið sem kynnst hafa hörðum heimi. Þetta er maðurinn sem ætlar að segja ykkur sögu Kiwanishússins hér í Kópavogi.

 

Ég átti alltaf þann draum að klúbburinn eignaðist aðsetursstað eða hús. Á fyrsta ári klúbbsins sá ég hvað það var mikill skaði fyrir klúbbinn að eiga ekki hús. Munir og allskonar eignir skemmdust og glötuðust í geymslum veitingahúsa, þar sem við komum saman til fundarhalda. Rætt var um þetta við fyrsta forseta klúbbsins. Hann kom með snjallar hugmyndir um húsakaup, en fáir vildu hlusta á þær.Mín stefna var sú að klúbbar, hver í sinu sveitarfélagi, ættu að sjá um sín húsamál sjálfir. En ég var rödd hrópandans í eyðimörkinni.

 

Á fundum klúbbsins hélt baráttan áfram. Eitt sinn vitnaði ég í kínverskan málshátt “Þúsund mílna ganga hefst með einu skrefi” og um leið lagði ég fram fyrstu krónurnar og stofnaði hússjóð Kiwanishússins í Kópavogi.

Gestur okkar og ræðumaður þetta kvöld var Thor Vilhjálmsson rithöfundur, hann hreifst svo af hugsjónum okkar að hann gaf okkur listaverk til að selja fyrir hússjóð. Við vildum ekki selja listaverkið, heldur leigðum það út til félaga okkar vissan tíma og leigutekjur fóru í hússjóð. Það var ánægjuleg stund mörgum árum síðar að Thor var aftur gestur okkar, kom í þetta hús og við gátum rifjað upp þessar minningar.

 

Húsmálið hélt áfram að vera hitamál á fundum. Tillaga kom að kjósa húsnefnd árlega. Völdust í hana úrvalsmenn, sem tókst að efla hússjóð. Góður félagi gaf farandverðlaunabikar áritaðan slagorði sem ég notaði oft í ræðum mínum. “Fuglar himins eiga sér hreiður”. Á stjórnarskiptafundi ár hvert var bikarinn veittur þeim sem, að mati klúbbstjórnar, hafði mest að húsmálinu unnið.

 

Svo liðu árin. Það var komið 1983. Ég var orðin 70 ára gamall. Baráttan um húsmálið hafði staðið frá 1972. Nú væri best að halda afmælisveislu og hætta svo allri baráttu í húsmálinu sem og öðru. “En enginn flýr örlög sín”, í þessa veislu kemur Eyjólfur Kolbeins, einn af fyrrverandi forsetum okkar, að máli við mig og tjáir mér að það sé möguleiki á að kaupa gamla verslunarhús Byko í Kópavogi, sem Kópavogsbær eigi núna, en skilyrði sé brottflutningur. Þessi hugmynd Eyjólfs var besta afmælisgjöfin sem ég fékk á mínu 70 ára afmæli.

 

Á næsta fundi var kosin viðræðunefnd til þess að ræða við þáverandi bæjarstjóra, Kristján Guðmundsson. Ég hlaut sæti í nefndinni og samningar náðust. Við keyptum húsið fyrir ákveðið verð, en þá upphæð tókum við svo aftur fyrir að flytja húsið af staðnum. Svo lét bæjarfélagið okkur fá lóð hér við Smiðjuveg undir húsið.

 

Þegar við höfðum fengið lóðina var hafist handa við að fylla upp í mishæðir með hraungjalli áður en grunnur yrði steyptur. Nú vaknaði sú spurning hvort að hægt væri að flytja húsið, það stóð nefnilega á steyptum grunni, með öðrum orðum, þegar búið væri að lyfta því þá var húsið botnlaust. Nú voru kallaðir til verkfræðingar, flutningasérfræðingar, menn voru misjafnlega bjartsýnir.

 

Leyfi varð að fá frá lögreglu til að flytja húsið og taka niður umferðarskilti. Þáverandi forseti klúbbsins var búin að fá leyfið um daginn, en um nóttina var komin önnur vakt sem ekkert vissi um þetta. Svo þegar hringt var í lögregluna og sagt að menn væru að stela umferðarskiltum við Nýbýlaveg, brá lögreglan skjótt við og hugðist handtaka sökudólgana, sem reynist vera forseti klúbbsins ásamt nokkrum embættismönnum. En þetta fór að lokum vel þó að það liti út um tíma að við misstum nokkra stjórnarmenn í tukthúsið, bara fyrir misskilning.

 

Flutningurinn gekk vel með húsið, það komst á nýjan grunn, hafist var handa við að breyta og bæta. Húsið var að mestu leyti klætt að nýju utan og innan. Settir nýjir gluggar og hurðir, nýjar rafmagns og hitalagnir, parket á gólfið, húsið málað og fleira.

Að sjálfsögðu reyndi mikið á forsetann og alla stjórn klúbbsins á þessum tíma. Stjórn klúbbsins skipaði bæði húsbyggingarnefnd og húsráð. Húsbyggingarnefnd sá um verklegar framkvæmdir, en húsráð um yfirstjórn framkvæmda og peningamál. Það má segja að klúbbfélagar okkar sem kallaðir voru til starfa unnu vel, hver eftir sinni getu og hæfileikum. Samtals unnu félagar okkar 3-4 þúsund klukkutíma við flutning og nýsmíði hússins.

 

Oft var ég spurður að því meðan á framkvæmdum stóð hvað við ætluðum að gera við húsið. Ég svaraði alltaf eins og söguhetja Halldórs Laxness í Sjálfstæðu fólki, Bjartur í Sumarhúsum; “Þegar maður á lífsblóm þá byggir maður hús”. Klúbburinn er eitt af okkar lífsblómumStendur líka ekki skrifað “refir fjallanna eiga sér greni og fuglar himinsins eiga sér hreiður”. Að eiga sér athvarf með félagsstarfssemi sína er ómetanlegt.

 

Og allt í einu var húsið tilbúið. Haldin var mikil veisla, boðið bæjarstjóra, bæjarráði, bæjarstjórnarmönnum, forstjórum fyrirtækja sem selt höfðu okkur efni á vægu verði, verkfræðingum, arkitektum, tæknifræðingum, kranamönnum, vörubifreiðastjórum, tækjamönnum og fleirum sem höfðu hjálpað okkur, ýmist endurgjaldslaust eða gegn vægu verði.

 

Svo var boðið embættismönnum Kiwanishreyfingarinnar. Þáverandi forseti okkar Stefán R. Jónsson fyrrverandi umdæmisstjóri, flutti þakkarræðu til allra þessara manna. Ég man aðeins lokaorð ræðu hans en þau voru þessi: “Kiwanishreyfingin er líknar- og mannúðarfélagsskapur sem vill liðsinna lítilmagnanum og rétta þeim hjálparhönd sem bágt eiga. Þið sem hafið lagt okkur lið hafið verið að hjálpa okkur í þessu starfi. Ágætu gestir, djúpt snortinn af góðmennsku ykkar lyfti ég glasi mínu ykkur til heiðurs, ég bið ykkur að drekka skál þakklætis okkar Kiwanisfélaga í Eldey, án ykkar aðstoðar hefði þetta ekki tekist”.

 

Seinna um kvöldið héldum við svo fagnað með eiginkonum okkar sem voru búnar að hjálpa okkur mikið. Þessir fagnaðir tókust með ágætum og þar með var Kiwanishúsið í Kópavogi formlega tekið í notkun. Allt gekk þetta svo vel að mér fannst tími til að draga mig í hlé og hætta afskiptum af málefnum hússins. Nú áttu hinir yngri að taka við. Ég fylgdist með úr fjarlægð þegar þörf þótti að stækka húsið og þá gladdist ég yfir bjartsýni félaga minna. Framkvæmd stækkunarinnar lenti á fámennum hópi hæfileikamanna sem seint verður þakkað.

 

Ljóð hússins

Kiwanishúsið upp var reist
úr gömlum kofarústum.
Menn þar unnu, margir geyst,
með hamri, sög og kústum.

Ýmsir lögðu haga hönd
húsið til að prýða.
Köllum héldu engin bönd
höllina að skrýða.

Fjölmargt þufti í þetta hús,
þungar vélar og fleira.
Hurðir, spýtur, sand og grús,
síðan aðeins meira.

Fleira þurfti, tæki og tól
tangir, lím og hallamæla.
Að hafa húsið til um jól
herrarnir voru að gæla.

Saman tóku vífin völd
vildu lið sitt leggja til
Sátu og saumuðu gluggatjöld
salnum skyldi veita yl.

Margir ásamt mér og þér
Mikið saman kættust.
Á dimmu kvöldi í desember
Draumarnir ykkar rættust.

Höf: Anna Rannveig Jónatansdóttir